37. Landsmót Oddfellowa og 35 ára afmælismót GOF
Landsmótið fór fram á Urriðavelli dagana 8. og 9. ágúst 2025. Þar sem þetta er afmælisár GOF, var ákveðið að gera mótið eins eftirminnilegt og nokkur kostur væri. Landsmót Oddfellowa hefur alltaf verið meira en golfmót. Þetta er ein stærsta samkoma Oddfellowa og maka þeirra ár hvert. Margir koma um langan veg til að hitta aðra Oddfellowa og fara heim með góðar minningar.
Boðið var til móttöku daginn fyrir golfmótið á hótel Berjaya Reykjavík Natura, þar sem mættu reglusystkin og makar frá öllum landshornum. Um 100 félagar komu, þáðu veitingar og fengu upplýsingar um fyrirkomulag mótsins, ræddu saman og ryfjuðu upp gömul kynni.
Við þetta tækifæri var Tryggva Ölver Gunnarssyni, vallarstjóra Urriðavallar til 25 ára veitt viðurkenning og þakklætisvottur fyrir gott samstarf og vel unnin störf, með einlægri ósk um að árin megi verða mörg til viðbótar.
Landsmótið fór fram í blíðskaparveðri á Urriðavelli sem skartaði sínu fegursta. Alls höfðu 177 keppendur skráð sig í mótið að þessu sinni. Keppt var í eftirtöldum flokkum; bræðra, systra, maka og heldrikeppnenda (reglusystkin 75+). Samhliða þessu var svo keppni milli stúkna en þar telja þrjú bestu skor hverrar stúku. Að auki voru veitt nándarverðlaun á öllum par 3 holum og fyrir lengsta upphafshögg kvenna á 9. holu og karla á 11. holu. Sjá úrslit með því að smella hér.
Snemma í undirbúningi fyrir mótið var ákveðið að slá upp í góða veislu að loknu móti og fá helst alla sem gerðu sér ferð á Landsmótið í það partý. 202 gestir mættu í lokahófið sem var haldið að þessu sinni í Miðgarði nýrri íþróttamiðstöð við Vífilstaði í Garðabæ. Veitingastjórinn á Urriðavelli, Axel og hans lið sá um að framreiða dýrindis rétti á faglegan og fumlausan hátt. Gestir skemmtu sér vel undir stjórn Sigga Hlö, st. nr. 16. Snorra goða og stóð fagnaðurinn fram undir miðnætti.
Þetta kvöld var Óskar G. Sigurðsson st. nr. 12, Skúla fógeta, tekinn í Heiðurshöll Golfklúbbs Oddfellowa. Hann er einn af frumherjum golfvæðingar innan Odfellowreglunnar og var í broddi fylkinar á upphafsárum golfvallargerðar í Urriðavatnsdölum. Þá á hann heiðurinn að hafa haldið fyrsta Landsmót Oddfellowa 1989 og var jafnframt fyrsti formaður Golfklúbbs Oddfellowa 1990 til 1992 og stofnfélagi og fyrsti formaður Golfklúbbsins Odds.
Mótsstjórn þakkar öllum sem gerðu þennan viðburð mögulegan og jafn eftirminnilegan og þeir sem tóku þátt í honum geta vitnað um.
Valdimar Lárus Júlíusson
Trausti Víglundsson
Þórður Ingason